Í desemberblaði Sjúkraliðans 2023 var skemmtilegt að sjá og lesa viðtal við Rannveigu Ingadóttur. Fáum að birta það hér með góðfúslegu leyfi. Myndir tók Dagný Dögg Steinþórsdóttir.

Rannveig Ingvadóttir sjúkraliði býr í Hveragerði og starfar á Heilsustofnun. Hún segir að starfið sé mjög fjölbreytt og sjúkraliðar fái að njóta sín í allri sinni vinnu.

Rannveig Ingvadóttir hefur starfað á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði í rúmlega 25 ár. Hún tók nokkurra ára frí til að stunda nám í garðyrkjufræði- og blómaskreytingum og starfar stundum við í frístundum, hún hefur einnig starfað við heimahjúkrun og á Dvalarheimilinu Ási.

Rannveig lauk námi 1989 og var í síðasta hópnum sem útskrifaðist frá Sjúkraliðaskóla Íslands. Eftir útskrift úr sjúkraliðanámi hóf hún störf á skurð- og þvagfæradeild á Landspítalanum. Upphaflega stóð til að verða fóstra, eða leikskólakennari eins og það heitir nú. „Ég valdi síðan frekar að fara í sjúkraliðanám því ég var spenntari fyrir sveigjanlegum vinnutíma,“ segir hún.

Rannveig er ánægð hjá Heilsustofnun og segir enga vakt eins. „Það eru auðvitað föst verk sem unnin eru á hverri vakt, eins og blóðþrýstingsmælingar, hjartalínurit, blóðsykursmælingar og almenn eftirfylgni með dvalargestum. Við tökum innskriftarviðtöl við nýja dvalargesti, sjáum um slökunarmeðferðir, förum í göngur sem farnar eru í hópum daglega, nokkrir sjúkraliða sjá um stuðningsviðtöl við dvalargesti sem vilja hætta að reykja.

rannveig vid storfFjölbreytt starf

Á Heilsustofnun kemur alls konar fólk með mismunandi þarfir, unnið er í teymum og þjónustan og endurhæfingin einstaklingsmiðuð. Fólk kemur inn á mismunandi línur, s.s. verkja og gigtarlínu-, krabbameinslínu, hjartalínu, öldrunarlínu, streitulínu og geðendurhæfingu.


Við sinnum dvalargestum má segja frá A-Ö. Aðstoðum fólk við böðun og að komast í sundleikfimi og fylgjum eftir þeim sem þess þurfa til að stunda sínar meðferðir, en sumir þurfa hvatningu og stuðning fyrstu dagana.
Það geta alltaf komið upp einhver bráðatilfelli og því þurfum við ávallt að vera viðbúin, en skyndihjálparnámskeið eru haldin mjög reglulega fyrir starfsfólk.


Á Heilsustofnun kemur fólk á öllum aldri, ekki bara eldra fólk en öldrunarlínan er þó stærst. Það er öflug slökunarmeðferð á Heilsustofnun sem sjúkraliðarnir sinna mikið, við erum mikið að hvetja og styðja og sinna andlegri aðhlynningu.
Það er mikil streita í þjóðfélaginu og fjöldinn allur sem kemur til okkar vegna hennar, margir bugaðir og örmagna. Þar eru kvennastéttirnar áberandi, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, kennarar auk annarra. Það er alltaf að aukast að karlar leita til okkar, þeir bugast líka,“ útskýrir Rannveig.

„Það er mjög ólíkt að öllu leyti að starfa á sjúkrahúsi eða Heilsustofnun,“ segir hún. „Við störfum ekki í sams konar rútínu og er á sjúkrahúsi eða dvalarheimilum.

Þverfagleg teymi vinna saman

Mikil eftirfylgni er með okkar dvalargestum. Teymin eru þverfagleg fyrir hverja línu og funda vikulega hvert fyrir sig þar sem farið er yfir stöðu hvers og eins. Þannig er hægt að sjá ef eitthvað er sem betur má fara, einnig eru stöðuviðtöl sem hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar í viðkomandi teymi reyna að taka við hvern dvalargest, þannig að það má segja að endurhæfingin sé algjörlega einstaklingsmiðuð. Við í öldrunarteyminu erum með stöðufundi vikulega, með litlum hópum, vegna þess að línan er svo fjölmenn. Þar er farið yfir stöðuna og fólk getur spurt um það sem því liggur á hjarta og komið með athugasemdir sem reynt er að bregðast við. Starfið er því mjög faglegt og með öflug markmið.“


Fá mikið þakklæti

Rannveig segir að starfsfólkið fái mikið þakklæti frá því fólki sem dvelur á Heilsustofnun. „Það er það skemmtilegasta við starfið að sjá þessar miklu framfarir hjá fólki og hversu þakklátt það er. Þessar framfarir er oft alveg kraftaverki líkastar. Fólk lærir að breyta lífsstílnum til betri heilsu, til frambúðar,“ segir hún. Margt eldra fólkið kemur í árlega endurhæfingu til að viðhalda heilsu sinni og færni til að geta dvalið lengur heima og verið sjálfbjarga, það er náttúrulega ómetanlegt. Að vera þátttakandi í því að fólk nái svona miklum framförum er það sem mér finnst lang skemmtilegast við starfið,“ segir Rannveig. „Það er virkilega gefandi.“

Fólk kemur á Heilsustofnun með beiðni frá lækni en Sjúkratryggingar greiða að hluta til fyrir sex vikna dvöl á ári, en flestir eru í fjórar vikur. Hægt er að koma á eigin vegum á svokallaða Heilsudaga og greiða sjálfur fyrir dvölina.
„Starf sjúkraliðanna hefur þróast mikið á undanförnum árum hér á Heilsustofnun, þeir eru orðnir miklu virkari í sínu starfi hér og tæknin hefur líka gjörbreyst og áhersla á faglegt starf miklu meiri.


Við á hjúkrunarvaktinni erum svo heppin með yfirmenn, bæði deildarstjórinn okkar og hjúkrunarforstjórinn eru mjög hvetjandi og jákvæðir í okkar garð, styðja okkur starfsfólkið óspart til að blómstra í starfi. Ég ásamt fleirum á hjúkrunarvaktinni hef til dæmis lært dáleiðslu og nú er djúpslökunardáleiðsla hluti af meðferð hér sem læknar vísa í. Við erum með einn dáleiðsludag í viku hver og ein. Þetta er djúpslökunardáleiðsla sem nýtist mjög vel gegn streitu, kvíða, svefnvandamálum og fleira, gríðarlega eftirsótt og áhrifaríkt. Síðan fór ég á námskeið til að læra minnisþjálfun og sé ásamt fleirum um hana sem er hóptími fyrir eldra fólkið tvisvar í viku. Einhverjar hafa farið í jógakennaranám og kenna jóga hér sem hluta af sínu starfi. Þannig að starfið er mjög fjölbreytt og skemmtilegt, engin lognmolla. Það er mjög samheldin og skemmtilegur hópur sem vinnur á hjúkrunarvaktinni, einstaklega góðir vinnufélagar og frábærir yfirmenn, það er sko sannarlega dýrmætt.”

Heilsueflingin á Heilsustofnun hefur auðvitað áhrif á líf Rannveigar. Hún reynir að vera dugleg að fara í göngur, stundar jóga og djúpslökun. „Maður lærir að huga að mataræðinu, passa streituna og svefninn sem er mikilvægt. Það er líka mjög róandi og skemmtilegt að vinna með blóm. Blómaskreytingar eru skapandi listgrein og eitt af mínum áhugamálum, svo er ég með gróðurhús og rækta mín eigin sumarblóm. Ég hef einnig áhuga á útiveru í náttúrunni og ferðalögum auk þess er ég mikil prjónakerling.“

Stutt að fara í vinnu

Rannveig er gift, á fjögur börn og tíu barnabörn plús fjögur bónus barnabörn. „Maðurinn minn, Ian Wilkinson sem er breskur, á að auki tvö börn, þrjú barnabörn og tvö langafabörn, en þau búa öll í Englandi. Þetta er stór fjölskylda og oft mikið fjör þegar allir koma saman, það er það sem ég elska mest,“ segir hún.

„Ég bjó lengi í Reykvík, en mér finnst dásamlegt að búa í Hveragerði í svona nánum tengslum við náttúruna en samt svo stutt í borgina. Bærinn hefur vaxið og dafnað frá því við fluttum hingað, fjöldi veitingastaða og frábær sundlaug. Það er stutt fyrir mig að fara í vinnuna sem er stór plús. Mér finnst alltaf gaman í vinnunni og þótt ég sé orðin 65 og styttist í eftirlaun langar mig alls ekkert til að hætta strax,“ segir Rannveig.


 Hægt er að hlaða niður blaðinu hér