Ágrip af sögu Heilsustofnunar NLFÍ

Heilsustofnun NLFÍ tók til starfa í júlí árið 1955. Jónas Kristjánsson læknir, sem var einn af brautryðjendum náttúrulækningastefnunnar á Íslandi, hafði forystu um undirbúning og uppbyggingu Heilsuhælis NLFÍ, eins og stofnunin hét þá. Fljótlega eftir opnun 1955 var hægt að taka á móti 40 gestum, en starfsemi stofnunarinnar hefur aukist og húsakostur stækkað hægt og bítandi og nú koma meira en 2000 manns árlega til dvalar á Heilsustofnun. Heilsustofnun er í eigu Náttúrulækningafélags Íslands.

Náttúrulækningastefna HNLFÍ
Náttúrulækningastefna Heilsustofnunar NLFÍ er byggð á heildrænum lækningum. Heilsuvandi einstaklinganna er skoðaður með það í huga að líta þurfi á andlegt, líkamlegt og félagslegt ástand í samhengi. Meðferðarstefnan felur m.a. í sér þá viðleitni að koma á og viðhalda eðlilegum og heilbrigðum tengslum á milli einstaklingsins og umhverfis hans og efla varnir líkama og sálar gegn hverskonar vanheilsu og sjúkdómum.

Meginhlutverk Heilsustofnunar er að stuðla að heilsuvernd, endurhæfingu og fræðslu. 
Gestir þurfa að hafa fótavist og geta bjargað sér að mestu leyti sjálfir við daglegar athafnir. Við meðferð er lögð áhersla á markvissa hreyfingu, hollt mataræði, slökun og hvíld. Fræðsla og fagleg ráðgjöf er stór þáttur í starfinu og þar er lögð mest áhersla á heilsuvernd og bætta lífshætti. Náttúrulækningastefna Heilsustofnunar NLFÍ er í fullu samræmi við markmið Alþjóðaheilbrigðistofnunarinnar um bætt heilbrigði og heilsufarsþróun í heiminum og fellur hún vel að íslenskri heilbrigðisstefnu.

Stefna
Stefna Náttúrulækningafélags Íslands hefur ávallt verið sú að auka og efla þátt hugtakanna heilbrigði og heilsuvernd í umræðu og verkum, og víkja frá hinni einlitu sjúkdómaumræðu. Það eflir heilbrigði og þroska að fara eftir stefnunni, m.a. með fræðslu, neyslu holls fæðis, líkamsþjálfun, slökun og hvíld. Tilgangur og takmark náttúrulækningastefnunnar er því annars vegar heilsuvernd og hinsvegar heilsubót. Þessi markmið eru enn í fullu gildi. Heilsustofnun NLFÍ forðast kennisetningar sem ekki standast vísindalega gagnrýni. Hófsemi í líferni og skilningur á heildstæðum lausnum læknisfræðinnar, heilbrigt líferni í víðum skilningi, verður meginhlutverk félagsins í nútíð og framtíð, auk umhverfisverndar.