Offitumeðferð

Meðferðin hentar þeim sem vilja öðlast betri heilsu og líðan og eru tilbúnir til að breyta lífsháttum sínum til langframa. Hún hentar þeim sem glíma við offitu og/eða fylgikvilla s.s. sykursýki.

Streitumeðferð

Meðferðin hentar einstaklingum sem eru að glíma við það mikla streitu að það er farið að hafa hamlandi áhrif á andlega líðan, líf og störf einstaklinga. Streita er eitt hættulegasta mein nútímaþjóðfélags þar sem margir eru með alltof mörg verkefni og skyldur á sinni könnu, s.s. vinnu, fjölskyldu, vini, félagsstarf, heilsu og fjárhag. Því miður verður streitan stundum svo mikil að fólk upplifir að það er að gefast upp eða örmagnast og getur illa sinnt skyldum sínum. Þessi meðferð er fyrir þessa einstaklinga og aðra er telja að streitan sé farin að hafa hamlandi áhrif á líf þeirra.

Verkjameðferð

Meðferðin hentar einstaklingum á vinnufærum aldri með langvarandi stoðkerfisverki, þar á meðal vefjagigt. Hún hentar fólki sem enn er á vinnumarkaði en einnig þeim sem eiga í erfiðleikum með að halda starfsþreki eða jafnvel hafa þurft að hætta á vinnumarkaði.

Hvert er markmið meðferðarinnar?

Markmiðið er að einstaklingurinn auki færni í sínum daglegu athöfnum og öðlist getu til að taka virkari þátt í samfélaginu. Að hann auki lífsgæði sín með því að öðlast hæfni í eigin bjargráðum, læri að virða mörk sín og öðlist færni í að finna jafnvægi milli hreyfingar og hvíldar. Unnið er að því að hver einstaklingur efli líkamsvitund sína, bæti beitingu líkamans og auki líkamlegan þrótt. Að hann vinni á virkan hátt að bættri andlegri líðan, bæti svefn, læri streitustjórnun, öðlist getu til að stjórna ástandi sínu og bæti úthald í daglegu lífi. Þátttakandi á svo í lok meðferðar að leggja drög að framhaldinu með aðstoð fagfólks og marka upphafið að breyttum lífsstíl.

Þjálfun

Áhersla er lögð á hæfilega hreyfingu eftir getu hvers og eins, t.d. vatnsleikfimi, útigöngur og bakæfingar. Líkamsvitund er notuð til að þjálfa einstaklinginn í að greina á milli æskilegrar og óæskilegrar líkamsstöðu og hreyfinga. Þannig aukast gæði hreyfinga í daglegu lífi og fólk lærir að beita sér meðvitað. Einstaklingurinn er hvattur til að læra að nota hugleiðslu og líkamsvitundaraðferðir til að takast á við andleg og líkamleg einkenni sem tengjast langvinnum verkjum. Grunnur er lagður að sjálfshjálp og ráðleggingar veittar um framhaldið.

Önnur meðferð

Fagfólk metur þörf fyrir einstaklingsmeðferðir t.d. sjúkraþjálfun, nálastungur, sjúkranudd, næringarráðgjöf og stuðningsviðtöl. Áhersla er lögð á að efla andlega heilsu, bæta svefn og minnka streitu. Reynt er að hjálpa fólki að draga úr notkun sterkra verkjalyfja og nota í staðinn aðrar fjölbreyttar verkjameðferðir sem í boði eru.

Fræðsla

Fjölbreytt fræðsla er í boði á Heilsustofnun og er verkjafólk sérstaklega hvatt til að sækja fyrirlestraröð um færni og heilsu þar sem m.a. er farið í hvernig hreyfingin er notuð til að bæta líðan og minnka verki og streitu. Þá eru fyrirlestrar um þunglyndi og kvíða, svefn og mataræði og streitunámskeið haldin reglulega.

Hver er lengd meðferðar?

Lengd meðferðar er að öllu jöfnu fjórar vikur. 

Hverjir koma að meðferð?

Í verkjateymi starfa læknir, sjúkraþjálfarar, íþróttakennari,hjúkrunarfræðingur, sálfræðingur, sjúkraliði og sjúkranuddari.