Þeir einstaklingar sem koma til endurhæfingar þurfa að hafa:

  • starfræna getu til að hjóla á þrekhjóli og fara í tæki
  • andlegt þrek til að tileinka sér tilsögn og fræðslu
  • hjarta-, æða- eða lungnasjúkdóm sem þarf að fylgjast með
  • löngun og vilja til að taka þátt

Meðferðarskrá inniheldur m.a. eftirfarandi:

  • Stöðuviðtal hjá hjúkrunarfræðingi/sjúkraliða
  • Þrekþjálfun 3x í viku í tækjasal undir leiðsögn
  • Leikfimi 2-3x í viku
  • Vatnsleikfimi 2-3x í viku
  • Þolganga 5x í viku
  • Slökun 5x í viku
  • Ýmis fræðsla

Ef þörf er talin á er veitt einstaklingsmeðferð (næringarráðgjöf, stuðnings­viðtöl, sjúkranudd, sjúkraþjálfun, nálastungur, vatnsmeðferð, líkamsgreining,  reykleysisstuðningur, áreynslu­próf, hjartalínurit, blóðfitumælingar, öndunarmælingar, svefnrannsókn, sólarhrings­blóð­þrýstings­mæling).

Athugasemdir hjartalæknis  varðandi hjartasjúklinga og baðmeðferðir

Ástand hjartasjúklinga er að sjálfsögðu afar misjafnt og á það reyndar við um fólk yfirleitt.  Varðandi baðmeðferðir þarf heilbrigð skynsemi að ráða för og á það við fyrir alla. Hjartasjúklingar með vel meðhöndlaðan sjúkdóm, í stöðugu ástandi, eru oftar en ekki færir í flestan sjó og geta farið í heita potta, sauna og köld böð eins og aðrir. Hjartabilaðir, einkennamiklir með óviðgerðan sjúkdóm og þeir sem eru á flókinni lyfjameðferð skyldu þó ekki stunda baðmeðferðir nema að undangengnu mati hjartasérfræðings. 
Þorkell Guðbrandsson dr.med.
Sérgr. Lyflækningar og hjartalækningar.

Meðferð varir í 4 vikur. Markmið dvalar er að auka eða viðhalda þreki og fræðast um hvernig hægt er að ná fram sem bestum lífsgæðum miðað við heilsu.

Markmiðið með meðferð er að auka hæfni einstaklings til að lifa sem  eðlilegustu lífi þrátt fyrir sjúkdóm og að auka lífsgæði með því að:

  • auka líkamlegt þrek og færni
  • hindra framgang sjúkdóms
  • bæta svefn
  • draga úr streitu eða stjórna henni
  • bæta næringarástand
  • ná blóðþrýstingi í sem eðlilegast horf
  • lækka blóðfitur
  • hætta reykingum (ef það á við)

Teymi:

Hópur fagfólks vinnur saman að framkvæmd meðferðar í teymisvinnu í samvinnu við einstaklinga sem koma til meðferðar á hjartalínu. Þetta eru læknir, hjúkrunarfræðingur, sjúkraliði, sjúkraþjálfari og íþróttafræðingur. 

Rannsóknir hafa sýnt fram á gildi þjálfunar og bættra lífshátta, bæði sem forvörn og til þess að hindra framgang sjúkdóms. 

Ávinningur af þjálfun:

  • minni æðakölkun
  • bætt blóðflæði til hjartavöðvans og annarra vöðva
  • lækkun blóðfitu, hækkun góðu blóðfitunnar
  • blóðþrýstingur og hvíldarpúls lækka, minna álag á hjarta og  æðakerfi
  • aukin afkastageta hjartavöðvans, betri nýting súrefnis
  • aukið þrek og færni
  • efling öndunarfæra, minni mæði, hreinna kerfi
  • minni andleg spenna og kvíði, betri svefn
  • auðveldar að halda líkamsþyngd (ofþyngd) í skefjum
  • aukin lífsgæði

Í flestum tilfellum er um fjölþættan vanda að ræða og á Heilsustofnun er reynt að taka á sem flestum áhættuþáttum auk þess sem þjálfun og fræðsla er höfð eins markviss og kostur er. Við leggjum áherslu á að þjálfun og heilbrigðir lífshættir þurfa að vera fastur liður í lífinu og að við berum öll ábyrgð á eigin heilsu.

Við reynum að leiðbeina einstaklingum með þjálfun og lífshætti eftir að heim er komið og að finna leið til þess að viðhalda árangrinum.

Við fáum reglulega reynslusögur frá gestum okkar og hér getur þú séð hvað þeir segja um dvöl sína á Heilsustofnun.

Skoða ummæli