Krabbameinsendurhæfing

Meðferðin hentar þeim sem vilja öðlast aukinn styrk, betri heilsu og bætta líðan í kjölfar krabbameinsmeðferðar, eða á milli meðferða.

Hvert er markmið meðferðarinnar?
Markmið meðferðarinnar er að auka líkamlegan styrk, efla andlega, líkamlega og félagslega heilsu og auka lífsgæði. Unnið er að því að þátttakendur nýti sér hollt og fjölbreytt mataræði og reglulegar máltíðir. Að þeir finni þá leið sem best hentar til að draga úr streitu og álagi í daglegu lífi, bæta svefn, setja sér markmið og vinna að þeim.

Þjálfun
Einstaklingsmiðuð þjálfun er hluti af meðferðinni og sett er upp áætlun um hreyfingu á meðan á dvöl stendur. Algengast er að þátttakendur stundi vatnsleikfimi eða leikfimi af ýmsum toga, æfingar í tækjasal, göngur, heilsuböð og slökun. Læknir metur þörf fyrir sjúkraþjálfun, sjúkranudd, nálastungur, vaxmeðferð og leirmeðferð.

Önnur meðferð
Þátttakandi getur fengið stuðningsviðtöl hjá sálfræðingi eða hjúkrunarfræðingi og viðtöl hjá næringarráðgjafa eftir því sem ástæða þykir til. Slökun og baðmeðferð stendur einnig til boða.

Fræðsla
Á Heilsustofnun er margþætt fræðsla í boði fyrir gesti. Til meðferðar við svefntruflunum og streitu er boðið upp á fyrirlestra og hópmeðferð í framhaldi til úrlausnar verkefnanna. Einstaklingar eru sérstaklega hvattir til að mæta á eftirtalda fyrirlestra: Heilsusamlegt mataræði, svefn, gildi þjálfunar, heilbrigt líf - alltaf og forgangsröðun og skipulag. Í síðustu viku dvalar býðst svo aðstoð við að skipuleggja áframhaldandi heilsuáætlun til að viðhalda árangri dvalarinnar.

Hver er lengd meðferðar?
Lengd meðferðar er að öllu jöfnu fjórar vikur.

Hverjir koma að meðferð? 
Á Heilsustofnun er starfandi þverfaglegt teymi sem í er læknir, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingur, næringarráðgjafi, sjúkraþjálfari og íþróttakennari. Áhersla er lögð á góða samvinnu þátttakenda og fagaðila í því að undirbúa breytingar á lífsstíl sem nauðsynlegar eru í daglegu lífi til að ná árangri.

Við fáum reglulega reynslusögur frá gestum okkar og hér getur þú séð hvað þeir segja um dvöl sína á Heilsustofnun.

Skoða ummæli