Færni og heilsa

Fræðslan um færni og heilsu er röð 12 fyrirlestra um hin ýmsu málefni er snúa að aukinni færni og bættri heilsu.

Fyrirlestrar eru haldnir mánudaga, miðvikudaga og föstudaga kl. 10:00

Liðamót - liðvernd
Í fyrirlestrinum er fjallað um líffærafræði liðamóta, mismunandi byggingu og hreyfingu liðamóta og stöðu liða við álag. Einnig er rætt um sjúkdóma í liðamótum og áhrif yfirréttu í hnélið og líkamsstöðu. 

Hryggurinn - styrkleikar og veikleikar
Fjallað er um mismunandi gerðir liða í hryggnum og sveigjur hryggjarins. Skoðaður er þverskurður af liðbol og þátttakendur fræddir um brjóskþófa, mænu, taugar og sjúkdóma og veikleika í hrygg. 

Svefn 
Fjallað er um eðli svefns, hvað stjórnar svefninum og svefnmunstur. Farið er yfir orsakir og mögulegar leiðir til úrbóta á svefnvandamálum. 

Sitjandi staða í hvíld og vinnu
Farið er yfir heppilega setstöðu og þátttakendur prófa sig áfram. Fjallað er um álag á hryggjarliði, mismunandi setstöður, vinnustóla, vinnuaðstöðu og að yfirfæra góða setstöðu í hvíld.

Hreyfistjórn 
Fjallað er um hreyfinám, mismunandi tegundir vöðva, hreyfivöðvakerfi og stöðugleikakerfi bols og háls. Fjallað verður um hreyfivinnu og stöðuvinnu vöðva, vöðvapumpuna og bláæðakerfið. 

Sársaukaminni og hreyfing
Fjallað er um hugsanir, tilfinningar og líkamleg áhrif verkja. Einnig vítahring langvinnra verkja, breytt hreyfimynstur og þjálfun til að rjúfa vítahringinn. 

Standandi staða í hvíld og vinnu
Líkamsstaða er umræðuefni fyrirlestrar sem og þungaflutningur fram, aftur og til hliðanna. Einnig er farið yfir mismunandi borðhæð við vinnu og vinnuaðstöðu. 

Lyftitækni og daglegur burður
Fjallað er um grundvallarreglur lyftitækni í að lyfta þungum hlut frá gólfi, að færa þunga hluti s.s. kassa, að taka upp hluti með annarri höndinni og svo báðum höndum og að nota kerrur. Tæknin er svo æfð með þátttakendum.  

Andleg líðan fólks með verki
Hvernig er að vera einstaklingur með langvinna verki innan um fólk sem er ekki með langvinna verki. Fjallað er um skilgreiningar á verk og sársauka og upplifun hvers og eins. Fjallað er um andlega líðan fólks með langvinna verki út frá kenningum um sorg og sorgarviðbrögð. Breytingar á heilsufari ræddar.

Hvíld, rúm og hægindastólar
Fjallað er um mikilvægi hvíldar og svefns. Farið er yfir mismunandi tegundir rúma, stöðu hryggjar í liggjandi stöðu, að velja sér rúm, kodda og hægindastól og mismunandi hvíldarstöður. 

Hreyfing og streitustjórnun
Farið er yfir skilgreiningu á streitu, flóttaviðbragði, hreyfingu sem streitustjórnun og almenn áhrif þjálfunar. Einnig er farið yfir áhrif þjálfunar á streitu og streitustjórnun, slökun, svefn, áhrif þjálfunar á skapsveiflur og hvers konar þjálfun er best að stunda. 

Forgangsröðun og skipulag
Markmiðasetning (skammtíma- og langtímamarkmið), leiðir að markmiðunum og að takast á við hindranir er umræðuefni þessa námskeiðs. Þátttakendur vinna að því í tímanum að setja upp stundaskrá til að skipuleggja tímann eftir útskrift. 

 

 

stofnunarins2023   fyrirmyndarstofnun2023

Vilt þú gerast hollvinur Heilsustofnunar?

Við fáum reglulega reynslusögur frá gestum okkar og hér getur þú séð hvað þeir segja um dvöl sína á Heilsustofnun.

Skoða ummæli