Gigtarendurhæfing

Meðferðin hentar einstaklingum með skerta færni og/eða lífsgæði vegna gigtarsjúkdóms. Boðið er uppá einstaklingsbundna gigtarendurhæfingu, fjölbreytta hreyfingu, slökun og fræðslu um hollar neysluvenjur og heilbrigðan lífsstíl.

Hvert er markmið meðferðarinnar?
Markmið meðferðarinnar er að auka líkamlega færni og þrek, draga úr verkjum og bæta andlega líðan. Einnig að auka hæfni til að lifa sem eðlilegustu lífi og auka lífsgæði. Veittur er stuðningur til varanlegra lífsstílsbreytinga og hvatning til sjálfshjálpar.

Þjálfun 
Líkamsþjálfun er mikilvægur hluti gigtarendurhæfingar. Þjálfun er sniðin að þörfum hvers og eins ýmist sem einstaklingsmeðferð eða hópmeðferð. Algengt er að þátttakendur stundi vatnsleikfimi eða leikfimi af ýmsum toga, æfingar í tækjum, göngur, heilsuböð og slökun. Læknir metur þörf fyrir sjúkraþjálfun, sjúkranudd, nálastungur, vaxmeðferð og leirmeðferð.

Önnur meðferð
Þátttakandi getur fengið stuðning til reykleysis, stuðningsviðtöl hjá sálfræðingi eða hjúkrunarfræðingi og viðtöl hjá næringarráðgjafa eftir því sem ástæða þykir til.

Fræðsla
Á Heilsustofnun er margþætt fræðsla í boði fyrir gesti. Þar á meðal er fræðsla um eðli sjúkdóma og þætti sem geta bætt líðan og aukið færni. Einstaklingar eru sérstaklega hvattir til að mæta í eftirtalda fyrirlestra: Færni og heilsa, hollt mataræði, svefn, gildi þjálfunar, heilbrigt líf - alltaf og forgangsröðun og skipulag. Í síðustu viku dvalar býðst svo aðstoð við að skipuleggja áframhaldandi heilsuáætlun til að viðhalda árangri dvalarinnar.

Hver er lengd meðferðar?
Lengd meðferðar er að öllu jöfnu fjórar vikur.  

Hverjir koma að meðferð?
Á Heilsustofnun er starfandi þverfaglegt teymi sem í er læknir, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfari, næringarfræðingur, sjúkranuddari og íþróttakennari sem vinna í góðri samvinnu við gesti.

 

 

Við fáum reglulega reynslusögur frá gestum okkar og hér getur þú séð hvað þeir segja um dvöl sína á Heilsustofnun.

Skoða ummæli