Föstudaginn 3. september 2021 birtist grein um árangursríka endurhæfingu á Heilsustofnun í Fréttablaðinu og viljum við því birta hana hér.

Einstaklingsmiðuð endurhæfing og faglega viðurkenndir mælikvarðar einkenna starfsemi Heilsustofnunar. Þangað koma um 1.350 einstaklingar árlega.

Á Heilsustofnun í Hveragerði koma um 1.350 einstaklingar á ári hverju í endurhæfingu og er dvalartími fjórar vikur. Beiðni frá lækni er skilyrði fyrir dvöl og eru mismunandi meðferðarlínur eftir eðli vandamáls hvers og eins, segja þær Steina Ólafsdóttir yfirsjúkraþjálfari og Halldóra Sigurðardóttir sjúkraþjálfari hjá Heilsustofnun.

„Undanfarin ár hafa verið innleiddir faglega viðurkenndir mælikvarðar til að meta og sýna fram á árangur meðferðar á Heilsustofnun. Heilsutengd lífsgæði er gagnreynt próf fyrir fólk að sjötugu, gerð er könnun í upphafi og lok dvalar og hefur prófið sýnt verulega bætingu á lífsgæðum eftir endurhæfingu,“ segir Steina.

Þær segja einstaklingsmiðaða meðferð byggja á áratugareynslu og það hafi sýnt sig að dvöl allan sólarhringinn á Heilsustofnun á endurhæfingartíma gefi skjólstæðingum tækifæri og svigrúm til að hlúa að sjálfum sér fjarri amstri hversdagsins. „Einstaklingsmeðferðir eru til að mynda sjúkraþjálfun, nálastungur, nudd, stuðningsviðtöl, næringarráðgjöf, heilsuböð, leirböð og dáleiðsla. Þátttaka í hópþjálfun er einnig mikilvæg, svo sem vatnsleikfimi, leikfimi, háls- og herðaæfingar, jóga, tai chi, bakæfingar, jóga í vatni og að ganga úti í náttúrunni í öllum veðrum er stór þáttur í endurhæfingunni,“ segir Halldóra.

Þær nefna einnig að núvitund og slökun henti mörgum og fjölþætt fræðsla sé vaxandi þáttur í endurhæfingunni, en þar má nefna streitufyrirlestra, húmor, svefnfræðslu, erindi um kvíða og þunglyndi, svefn og markmiðasetningu.

Öldrunarendurhæfing er gríðarlega mikilvæg

Um þriðjungur skjólstæðinga Heilsustofnunar er á öldrunarlínu og fær sálfélagslega og líkamlega endurhæfingu, að þeirra sögn. „Mikil umræða hefur verið undanfarið um mikilvægi þess að sinna þessum hópi betur og auka þjónustu til þeirra sem þurfa á henni að halda. Helsti ávinningur hjá eldra fólki sem kemur í endurhæfingu á Heilsustofnun er aukinn líkamlegur styrkur, þol og liðleiki,“ segir Steina. Göngupróf, mat á styrk og byltumat er meðal annars í boði og lögð er sérstök áhersla á að koma fólki af stað í hæfilega hreyfingu sem það heldur áfram að stunda í heimabyggð.

Halldóra Sigurðardóttir sjúkraþjálfari leiðbeinir hér skjólstæðingi Heilsustofnunar. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Halldóra Sigurðardóttir sjúkraþjálfari leiðbeinir hér skjólstæðingi Heilsustofnunar. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Félagslegi og andlegi þátturinn er einnig mjög mikilvægur, bætir Halldóra við. „Oft er verulegt álag á þeim sem eiga veika maka og vantar úrræði. Þessi hópur kemur gjarnan til okkar og fær mikið út úr dvölinni, bæði líkamlega og ekki hvað síst andlega og félagslega. Hér nær fólk andrými og getur aðeins kúplað sig út úr erfiðum aðstæðum sem bíða þess heima við.“

Hér er svo krækja á greinina sem birtist á vef Fréttablaðsins:

https://www.frettabladid.is/kynningar/arangursrik-endurhfing-i-hverageri/