Heilsustofnun er lokuð fyrir almenning vegna kórónuveirufaraldursins.   Nánari upplýsingar
 

Á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði fá sjúklingar líkamlega og sálfélagslega endurhæfingu í dásamlegu umhverfi. Nú njóta þar endurhæfingar margir sem veiktust af COVID-19 í vetur og vor.

„Sarfsemi Heilsustofnunar í dag er nær eingöngu læknisfræðileg endurhæfing,“ segir Birna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði.

Þangað sækja um 1.350 manns endurhæfingu á ári hverju samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.

„Oftast er það heimilislæknir viðkomandi sjúklings sem sendir beiðni með rökstuðningi um þörf á endurhæfingu til okkar og eftir þeim upplýsingum sem koma fram í beiðninni röðum við fólki á mismunandi línur eftir því hvert vandamál þess er. Við reynum eins og hægt er að forgangsraða sjúklingum eftir alvarleika, eins og til dæmis þegar viðkomandi er við það að detta út af vinnumarkaði eða í brýnni þörf fyrir endurhæfingu af öðrum ástæðum,“ upplýsir Birna, mitt í fagurri náttúru Heilsustofnunar.

Einstaklingingsmiðuð meðferð
Skjólstæðingar Heilsustofnunar glíma við fjölbreyttan vanda. „Segja má að þriðjungur þeirra sem koma til okkar glími við ýmiss konar stoðkerfisvanda og verki, annar þriðjungur fólks kemur í endurhæfingu vegna geðraskana, alvarlegrar streitu og áfalla, og svo kemur þriðjungur í öldrunarendurhæfingu, sem er líkamleg og sálfélagsleg endurhæfing fyrir fólk yfir sjötugt,“ útskýrir Birna.

birna gud

Hún segir meðferðir á Heilsustofnun ávallt vera einstaklingsmiðaðar og stjórnað af þverfaglegum teymum sem eftir atvikum eru í: sjúkraþjálfari,  þróttafræðingur, sálfræðingur, næringarfræðingur, sjúkranuddari, sjúkraliði, hjúkrunarfræðingur og læknir. 

„Hjá öllum okkar skjólstæðingum er áhersla á þjálfun og hæfilega hreyfingu, gott mataræði og góðan svefn, slökunarmeðferðir, fræðslu og  samtalsmeðferðir þegar við á. Allir koma til okkar í mánaðardvöl og það er oftar en ekki lykilinn að góðum árangri, að kúpla fólk út úr sínu umhverfi og dvelja á þessum dásamlega stað í nánum tengslum við náttúruna. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar um mikla þreytu er að ræða, eins og til dæmis eftir alvarleg veikindi, kulnun eða annars konar örmögnunarástand.“ 

Lánsöm að vera laus við smit

Að undanförnu hafa Heilsustofnun borist margar beiðnir um endurhæfingu frá fólki sem veiktist af COVID-19 síðastliðinn vetur og vor.

„Flestir þeirra sem fengu veiruna eru með mismikla síþreytu, það er að segja óeðlilega líkamlega og andlega þreytu. Margir eru enn óvinnufærir, meira en sex mánuðum eftir veikindin. Við búum vel að reynslu okkar síðustu árin í meðferðum síþreytusjúkdóma og höfum í öndvegi að fólk læri að stjórna orkunni sinni og ofgeri sér ekki,“ segir Birna og heldur áfram: „Margir eru líka með einkenni frá öndunarfærum, hjarta- og æðakerfi eða meltingarfærum  og oft tengjast þessi einkenni truf lun í ósjálfráða taugakerfinu. Fólk glímir því við misalvarleg eftirköst sem fara lítið eftir því hversu alvarleg veikindin voru á sínum tíma. Flestir þola svo létta hjartaþjálfun en við fylgjumst mjög vel með þessu fólki og erum stöðugt að finna út hvaða meðferðir og prófanir henta því best.“

Á Heilsustofnun ríkja skrýtnir tímar eins og víðast hvar vegna heimsfaraldursins. „Við höfum hingað til verið svo lánsöm að hafa ekki fengið neitt smit inn á stofnunina í þá níu mánuði sem kórónuveiran hefur geisað hérlendis. Við höfum allan tímann viðhaft strangar sóttvarnir og ráðstafanir, til dæmis er nú  heimsóknarbann, grímuskylda og tíu manna hámarksfjöldi í hreyfitímum, en engu að síður gengur starfsemin vel og er mikil ásókn í að koma til okkar í endurhæfingu.“  

Viðtalið er hluti af kynningarblaði Heilsustofnunar Fréttablaðinu þann 21.11.2020.