Hér má lesa grein eftir Bjarka Karlsson sem birtist í Morgunblaðinu 14. desember 2017 undir yfirskriftinni: Heilsuhagfræði fyrir nýja ráðamenn

bjarki karlsson

Kæru nýju þingmenn og ráðherrar. Til hamingju með embættin og megi ykkur farnast sem best því að þá farnast okkur öllum vel.

Ég þykist vita að daglega herji á ykkur her hagsmunaaðila þar sem hver kallar eftir framlagi úr sameiginlegum sjóðum til síns hugðarefnis sem hver og einn telur svo göfugt að sjálfsagt sé að skattborgarar standi straum af því. Eflaust er það stundum satt.

Sjálfur hef ég engan áhuga á því að íþyngja ríkissjóði. Þó að þorri vinnutekna minna sé af umbroti bóka, þýðingum, yfirlestri, textagerð og þess háttar finnst mér eðlilegt að virðisaukaskattur sé innheimtur af bókum, ekki aðeins 11%, heldur full 24% eins og af öðrum afþreyingar og munaðarvörum á markaði. Bækur eru varla mikilvægari en lífsnauðsynleg lyf sem eru enn í efra skattþrepinu. Þetta er skoðun mín þó að ég hagnist persónulega á afnámi bókaskattsins.

Nýlega dvaldi ég á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Ég hafði ofkeyrt mig svo á vinnu og yfirvinnu að ég var orðinn með öllu óvinnufær, að því er virtist til lífstíðar. Í Hveragerði endurheimti ég samt sem áður heilsuna og er snúinn til vinnu í stað þess að mæta á Tryggingastofnun með sterka umsókn um örorkubætur.
Undanfarin ár hafa um 1.500 manns notið þjónustu Heilsustofnunar á ári hverju en um áramót verður fækkað um 400. Herbergjum verður lokað og hæfu fólki hefur þegar verið sagt upp þar sem stofnuninni hefur lengi verið úthlutað 250 milljónum minna á ári en hún þarf til þess að endar nái saman.

Horfur á því að ég verði í hópi skattgreiðenda til starfslokaaldurs eru nú góðar. Lauslegir útreikningar mínir benda til þess að summa þess sem ég á eftir að borga í skatta út starfsævina, örorkubóta, sem ég hefði ella þegið, og kostnaður við nýafstýrðar innlagnir og lyfjaniðurgreiðslur fari nærri þessum 250 milljónum sem NLFÍ vantar svo sárlega. Þá er eftir að reikna hina dvalargestina 1.499 með. mbl 1412207 bjarki karlsson

Þó kann svo að fara að ég reynist vafasöm fjárfesting, hunsi læknisráðin og verði eftir allt saman baggi á ríkinu. En það eru 400 manns undir niðurskurðarhnífnum. Einhver þeirra hlýtur að endurheimta heilsuna. Jafnvel tíu. Sennilegast þó minnst hundrað. Ég var með yngri mönnum á Heilsustofnun svo að líklega er ekki 250 milljóna slægur í öllum og milljarðarnir í húfi ekki alveg 25 en þó versnar afkoma ríkisins um allmarga milljarða á ári hverju í þágu þess göfuga markmiðs að spara okkur skattgreiðendum einn kvartmilljarð árlega. Fé þessu hefði verið hægt að verja í eitthvað göfugt eins og ríkisrekna afþreyingarmiðla, sauðfjárræktarstyrki, heræfingar eða niðurgreiddar bækur svo að ég nefni eitthvað sem ykkur er kært (en mér ekki).

Með því að reikna aðeins með 100 arðsömum dvalargestum geri ég því skóna að ekkert sé á því að græða að þjónusta öll hin, þessi 300 sem niðurskurðurinn bitnar líka á. Ég vil síður ýkja tölur. En þó að ríkið afli ekki beinharðra peninga á dvöl þeirra þá græðir samfélagið mikla gleði og hamingju því að allt er þetta fólk ákaflega verðmætt, vinir okkar ættingjar, ómetanlegir fjársjóðir.

Mín elskulegu, væruð þið til í að hafa þetta í huga við fjárlagagerðina?

Höfundur vinnur með orð
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.