Heilsustofnun er lokuð fyrir almenning vegna kórónuveirufaraldursins.   Nánari upplýsingar
 

Sigríður H. Kristjánsdóttir greindist með COVID-19 þann 8. mars. Hún var veik í fimm vikur og hefur glímt við mikil eftirköst síðan. Hún segir dvölina á Heilsustofnun í Hveragerði hafa haft gríðarlega jákvæð áhrif á líðan sína.

Sigríður var svo ólánsöm að vera ein þeirra sem veiktust mjög alvarlega og var lögð inn á spítala.

„Ég er 48 ára, í fínu formi og nákvæmlega ekkert sem gaf til kynna að ég myndi veikjast alvarlega.“ Lífið gjörbreyttist „Í dag eru liðnir tæplega níu mánuðir og ég er rétt hálf útgáfa af sjálfri mér. Ég var mjög frísk, drífandi og atorkusöm og ávallt með marga bolta á lofti. Orku- og úthaldsleysið er nú algjört, bæði andlega og líkamlega. Ég þarf að forgangsraða öllu sem ég geri og skipuleggja dagana svo ég keyri ekki á vegg. Heilaþokan er aðeins að lagast en ég mundi ekki nokkurn skapaðan hlut. Í byrjun september fannst mér þessi þó hægi bati vera farinn að renna afturábak niður brekkuna. Ég var svo heppin að fá þá inni í Hveragerði þangað sem ég fór í lok september.“

Sigríður er ein þeirra sem veiktust mjög alvarlega af COVID-19. Hún segir dvölina í Hveragerði hafa haft mikil áhrif á hugsunarhátt sinn hvað endurhæfingu og bata snertir.

Kom ný til baka

„Þar var tekið öðruvísi á málunum en ég var vön að gera. Mér var sagt að ég gæti ekkert þjálfað mig til heilsu með meiri æfingum og látum, það myndi ekki enda vel og yrði alltaf bakslag. Ég var á þessum tímapunkti alltaf að ofkeyra mig þó mér fyndist ég ekki vera að gera neitt merkilegt. Næstu fjórar vikur var áhersla á slökun, léttar göngur, vatnsleikfimi, jóga, nudd, streitunámskeið og fleira í þeim dúr. Ég kúplaði mig alveg út og einbeitti mér bara að því að gera eins og mér var sagt. Ég kom kannski ekki stútfull af orku heim, en ég fékk nokkurs konar virkni-aðlögun þar sem ég lærði að stjórna andlegri og líkamlegri orku betur og forgangsraða. Ég er í sjúkraþjálfun og hreyfi mig daglega, en passa að hvíla mig líka svo ég hætti að keyra á þessa blessuðu veggi alltaf hreint.“

„Starfsfólkið á Heilsustofnun er alveg magnað og hélt ótrúlega vel utan um mig. Mikil áhersla á næringu og hvíld og öll meðferð er einstaklingsmiðuð. Ég fékk vikulega stundaskrá sniðna að mínum þörfum og ef dagskráin var of mikil var mér sagt að sleppa frekar úr og hvíla mig. Þetta gerði mér ótrúlega gott og hjálpaði mér að læra á þennan nýja veruleika meðan ég tekst á við eftirköst þessara veikinda.“