Heilsustofnun er lokuð fyrir almenning vegna kórónuveirufaraldursins.   Nánari upplýsingar
 

Jákvæð, sanngjörn og virkjar sjúkraliða

Sjúkraliðafélag Íslands hefur valið Margréti Grímsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, „Fyrirmyndarstjórnanda ársins 2014.“ Viðurkenningin var afhent við sérstaka athöfn á stofnuninni. Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjúkraliðafélags Íslands, flutti ávarp og sagði frá vali félagsins, en þessi viðurkenning var veitt í fyrsta sinn í fyrra. Hann sagði það skipta öllu máli fyrir sjúkraliða að hafa jákvæða stjórnendur.

anna sjukralidinnSjúkraliðar væru víða undir miklu álagi á heilbrigðisstofnunum og reynslan sýni að þeir sem hafi góða yfirmenn sem nýti menntun þeirra og starfsreynslu líði best í vinnunni og vinni af mestum áhuga. Óskað var eftir ábendingum frá öllum trúnaðarmönnum Sjúkraliðafélagsins og bárust ýmsar tillögur sem félagið kannaði meðal annars með viðtölum við sjúkraliða á umræddum vinnustöðum. „Niðurstaðan var sú að veita Margréti Grímsdóttur viðurkenningu félagsins fyrir árið 2014,“ sagði Gunnar Örn.

„Sjúkraliðarnir á HNLFÍ mæltu eindregið með henni; hún væri snilldar stjórnandi og alltaf hægt að treysta því að hún hlustaði á öll sjónarmið. Hún hafi sýnt það í verki að hún vilji virkja starfskrafta sjúkraliða sem séu virkir í öllum teymum og fái að blómstra í starfi. Margrét sé sanngjörn og jákvæð og alltaf hægt að leita til hennar.“

Viðurkenningunni fylgdi gjafabréf frá félaginu fyrir flugmiða hjá WOW AIR og ostakarfa frá Búrinu sem Helga Sigríður Sveinsdóttir, formaður Suðurlandsdeildar sjúkraliða, afhenti.
„Ég er djúpt snortin yfir þessu,“ sagði Margrét við sjúkraliðana í þakkarræðu sinni. „Ég vinn hérna með frábæru fólki.“

Góður stjórnandi þarf að hlusta

Margrét útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1996 og hélt þá með fjölskylduna til Bandaríkjanna. Hún lauk meistaranámi í klínískri félagsráðgjöf frá Boston University árið 2001 og starfaði síðan við háskólasjúkrahús í Flórída um árabil. „Við fluttum heim til Íslands árið 2007 og þá fór ég að vinna á Landspítalanum,“ segir Margrét. Hún var hjúkrunardeildarstjóri á göngudeildinni á Kleppi á árunum 2009-2012 og fór samhliða í nám í fjölskyldumeðferð við Endurmenntun Háskóla Íslands og lauk því í fyrra. Hún tók við núverandi starfi sínu á Heilsustofnunnin haustið 2012.

- Hvað þarf góður stjórnandi að gera fyrst og fremst?

„Góður stjórnandi þarf að hlusta og sýna í verki að hann sé traustsins verður,“ svarar Margrét. „Það eiga allir að geta komið til mín og treyst því að ég taki á málum þeirra af sanngirni og að það sem þeir trúa mér fyrir fari ekkert annað. Það er alltaf opið inn á skrifstofuna til mín og ég hvet fólk til að koma og ræða málin. Hingað eru allir velkomnir hvenær sem er með hvað sem er. Ég reyni að leysa málin á jákvæðan hátt og þegar lausnin er fengin þá er málið búið og gleymt.“ Margrét segir menntun sína sem félagsráðgjafi
koma að góðum notum og eins hafi hún mikið gagn af því sem stjórnandi að hafa farið í nám í fjölskyldumeðferð. „Það nám nýtist mér mjög vel við stjórnun sem snýst fyrst og fremst um  samskipti við annað fólk,“ segir hún. „Það er eins á vinnustað og í fjölskyldunni að allir hafa sitt hlutverk og fjölskyldumeðferðin kennir manni að sjá hlutina með öðrum hætti.“

- Var mikill munur á að starfa í Bandaríkjunum eða hér heima?

„Ég var að vinna á stóru sjúkrahúsi og þar var lögð mikil áhersla á langan vinnudag,“ svarar Margrét. „Ef þú skilaðir áttatíu tíma vinnuviku þá varstu eðalstarfsmaður! En mér líkaði vel að vinna þar og fékk að vera sjálfstæð í starfi sem er alltaf skemmtilegt.“

- Er ólíkt að starfa hér eða á Landspítalanum?

„Starfsumhverfið er mjög ólíkt, en samstarfsfólkið var ekki síður frábært,“ svarar Margrét. „Hérna leggja allir starfsmenn í hjúkruninni metnað sinn í að standa sig vel í vinnunni og það hjálpast
allir að. Margir eru með framhaldsnám, til dæmis sjúkraliðar sem hafa farið í framhaldsnám í hjúkrun aldraða eða geðhjúkrun og allir sýna mikinn áhuga á starfinu sínu. Mér finnst mjög mikilvægt að fólk sem er að bæta við menntun sína fái að blómstra á því sviði og hafi gaman í vinnunni, og reyni að ýta undir það. Ég hef sagt það áður að sjúkraliðarnir hérna eru einstakur hópur sem er alltaf reiðubúinn að bregðast vel við ef á þarf að halda.“

Margrét býr í Hafnarfirði og þarf því að aka daglega fram og til baka yfir Hellisheiðina. „Það gengur ágætlega og ég hef ekki farið útaf nema einu sinni!“ segir hún með bros á vör.

Hægt er að skoða greinina sem birtist í 4. tölublaði Sjúkraliðans 2014